Þessi færsla er
aðeins persónulegri og töluvert lengri en ég er vön að skrifa en það er
nefnilega þannig að þegar maður fer út að hlaupa þá eru allskonar hugsanir sem
þjóta um og ég ákvað að mínar ættu heima hér þar sem allir sem hafa áhuga á því
geta lesið..
Um daginn var
dagur sjúkraþjálfunar haldinn hátíðlegur. Þar voru saman komnir gamlir, nýir og
verðandi sjúkraþjálfarar til að hlusta á aðra sjúkraþjálfara og fleira sniðugt
fólk tala um allskonar sniðuga hluti. Einn af þeim fyrirlestrum sem mér fannst
áhugaverðastur var fyrirlesturinn hans Sigga Ragga um hvað þarf til að ná
árangri. Þar talaði hann um að til þess að ná árangri og til að bæta sig og
verða framúrskarandi í því sem maður gerir þarf maður að setja sér markmið. Markmiðasetning
er svo mikilvæg. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega í þá sálma, þar sem þetta
blogg gæti því orðið ca. 5 blaðsíðna ritgerð. Markmiðasetning er nefnilega
svona 1/3 af öllu sem ég hef lært í skólanum þetta árið. Allavega þurfa þau að
vera SMART (google it...). Maður þarf að hafa ástríðu fyrir því sem maður
gerir, vera tilbúinn að leggja á sig þetta “auka” umfram hina sem eru að reyna
að gera það sama og þú og síðast en ekki síst þarf maður að fara út fyrir
þægindarammann sinn! Það er nefnilega svoleiðis sem maður bætir sig. Sama
hvað það er sem maður vill gera.
Nú ætla ég ekkert
að ljúga að ykkur – mér finnst drepleiðinlegt að fara út að hlaupa. Reyndar
ætti þessi setning að vera í þátíð, því fyrir u.þ.b. ári síðan fannst mér það
allra leiðinlegasta sem hægt var að gera. Ég skiiiildi ekki fólk sem hljóp
fleiri tugi kílómetra sér til skemmtunar. Svo þykist ég alltaf ætla að byrja að
hlaupa. Ég ætla ekki einu sinni að segja ykkur hversu oft ég hef haldið því
fram að ég ætli að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Oft sko. En hversu oft
hef ég hlaupið 10 km? Ekki nokkurn tímann! Svo hlunkaðist ég af og til út að
hlaupa (skokka...ekki hlaupa) þegar sólin skein og lullaði þess á milli á
brettinu í WC á milli þess sem ég dansaði zumba, lyfti lóðum, bjórdósum,
búðarpokum og nammipokum. Svo til að gera langa sögu stutta missti ég nokkur
kíló, hætti að reyna að hlaupa því mér fannst það leiðinlegt, fann mér
hreyfingu sem ég elskaði og leið bara rosa vel. Svo byrjaði ég í BootCamp. Oft
langar mig bara ekkert á æfingu, tilhugsunin um brennandi læri og brennandi
lungu er oft ekkert kósí þegar maður liggur uppí sófa með teppi en VÁ hvað það
er alltaf gaman þegar maður er mættur. Það er svo ótrúlega auðvelt að halda
bara áfram að kúra. Það er líka svo ótrúlega auðvelt að horfa bara á einn Friends
í viðbót. Mitt “innra samtal” (köruletipúkinn á vinstri og köruræktardurgurinn
á hægri) hefur þróast síðasta árið úr því að vera sú sem horfir á 3 friends í
viðbót í það að drullast upp úr sófanum og gera eitthvað.
Að byrja í
BootCamp var stórt skref út fyrir minn þægindaramma. Samblanda af hlaupi (og
ÚTIhlaupi guð hjálpi mér), upphífingum (dauði og djöfull), bjarnargöngu,
hnúahnébeygjum, ketilbjöllum og allskonar vitleysu hefur ekki verið minn
tebolli en it grows on you og verður svo asnalega skemmtilegt. Svo byrjaði ég
að æfa byrjendablak hjá HK. Ég hef aldrei æft boltaíþróttir alla mína
ævi og hef forðast þær eins og heitan eldinn hreinlega vegna þess að ég er
glötuð í þeim. Ég var líka glötuð í blaki þegar ég byrjaði. Núna ná
uppgjafirnar mínar næææstum því allaf yfir netið!
Og nú...til að tengja allt þetta bull við punktinn sem ég er að reyna að
koma á framfæri hérna...þá er ég búin að fara tvisvar út að hlaupa í þessum
mánuði. Fyrsta skiptið fór ég stuttan hring sem lengdist óvart því ég bara gat
allt í einu hlaupið lengur. Næst fór ég sama hring á miklu betri tíma og betra
tempoi. Allt í rétta átt. Bekkjarsystur mínar ætla að hlaupa í
Reykjavíkurmaraþoninu og ég ætla með þeim 10 km. Jáb, I went there. Í þetta
skiptið mun ég standa við það því að munurinn á þessu skipti og öllum hinum sem
ég hef lofað sjálfri mér þessu er sú að ég veit að ég get það. Ég veit líka að
nú er það ekki hausinn sem mun stoppa mig, því hann er á svo mun betri stað en
hann hefur áður verið. Þegar maður setur sér markmið er svo mikilvægt að taka
inn í myndina hindranir sem geta orðið á vegi manns á leiðinni hvernig maður
ætlar að vera undirbúinn fyrir að yfirstíga þær. Mín helsta hindrun hafa verið
svona hugsanir: “æj það er svo kalt”,
“vá það er örugglega að byrja að rigna” eða “ég fer kannski á morgun
bara”. Nú hef ég fundið mína leið til að komast yfir þessar hindranir. “Hættu
þessu væli og drullastu á æfingu, þú verður SVO glöð þegar þú ert búin!” er
orðin mín leið til að komast yfir þær. Auðvitað er þetta ekkert svona einfalt
og hentar ekki öllum. Ég hef verið heillengi að vinna í því að styrkja mig bæði
líkamlega og ekki síst andlega og hver og einn verður að finna sína leið til að
komast í gegnum hvaða hindranir það eru sem halda aftur af þeim á leiðinni að
sínu markmiði. Hvort sem markmiðið er að fara út að hlaupa, ekki borða nammi í
viku, hækka meðaleinkunnina sína eða bara að líða vel í dag.
Þessi færsla átti
ekkert að vera svona dramatísk..ég hef bara alltaf verið voða dramatísk –
foreldrar mínir geta vottað það. Mér fannst bara svo merkilegt að ég, sem hef ekki
hlunkast meira en lítinn hring í hverfinu mínu um hásumar hafi tekið meðvitaða
ákvörðun um að fara út að hlaupa í myrkri og rigningu og í alvörunni fundist
það skemmtilegt! Pínulítið hænuskref í átt að 10 kílómetrunum, en svo lengi sem
það er í rétta átt þá er ég glöð! Litlu hlutirnir gleðja mann mest
Takk fyrir að lesa bullið í mér, þið sem entust alla leið hingað!
Nú læt ég sennilega ekki í mér heyra fyrr en einhverntímann í næstu viku því nú eru verkleg próf og þá er lögheimili mitt í Stapa, HÍ og þar er enginn tími fyrir blogg eða snyrtidót
Góðar stundir
-Kara