Saturday, December 7, 2013

Öðruvísi jóladagatal

Held það sé kominn tími til að deila með ykkur hvað hefur leynst á bakvið fyrstu 7 gluggana í fallegasta jóladagatali sem ég hef átt! Nefnilega Benefit jóladagatalinu. Það er, ólíkt öðrum jóladagatölum sem ég hef átt, ekki fitandi, heldur inniheldur það 24 litla snyrtivöruglaðninga frá Benefit. Reyndar bara 21 því mér til lítillar gleði fékk ég hárspennu í gær..voða sæta spennu reyndar en mig langaði meira í snyrtivörur. Veit svo að það er eitt afar óspennandi armband og líka óspennandi hálsmen sem bíður mín. En fyrir utan það þá er þetta dagatal allra peninganna (!) virði, því þó þetta séu mini-útgáfur af öllum vörunum notar maður svo lítið í einu af hverju að það ætti að endast manni í dágóðan tíma. Auk þess er þetta sniðug leið til að prófa vörur frá merkinu og þá getur maður splæst í alvöru stærð ef manni líst vel á eitthvað af þessu fína dóti :)


Svona lítur gripurinn út

-------------------------------------------------------


Fyrstu 7 gluggarnir



Í fyrsta glugganum var kinnalitur sem mig hafði dauðlangað að prófa mjög lengi. Hann heitir Coralista og er, eins og nafnið gefur til kynna, kóral-bleikur. Hann er með mjög fínum glitrandi ögnum, ekki of mikið glimmer en hæfilega mikið til að hann nái að þjóna tilgangi kinnalits og highlighter á sama tíma. Mun mjög líklega kaupa mér þennan í fullri stærð þegar þessi klárast.


Stay Don't Stray Primer - þetta er primer fyrir augnsvæðið, bæði fyrir hyljara og augnskugga. Hef ekki náð að prófa hann undir augnskugga en prófaði hann undir hyljara. Reyndar hef ég ekki átt í neinum vandræðum með að að hyljararnir mínir crease-i, svo ég hreinlega veit ekki hvort að hann hjálpaði til við að halda honum á sínum stað eða ekki. Hef þó fulla trú á honum og hlakka til að sjá hvernig hann stendur sig í að halda hátíðar-augnförðuninni á sínum stað :)


Þetta augnkrem er svoooo mjúkt og gott og ég finn að augnsvæðið mitt þurfti greinilega á þessu að halda. Hef bara átt eitt augnkrem og ekki notað það mikið, en held það sé kominn tími til að huga að þessu svæði og næra það vel þar sem húðin í kringum augun er sérstaklega viðkvæm og mikið af förðunarvörum hjálpar sennilega ekki til við að halda því í góðu standi. Mæli hiklaust með þessu kremi!


Neutral bleikt/coral gloss sem fer sérlega vel með dökku smokey. Látlaust og fínt og ekki skemmir lyktin fyrir!


Þetta er mjög áhugaverð og skemmtileg vara. Lítur svolítið út eins og gerviblóð og er með svona naglalakka-bursta. Þetta er fljótandi kinnalitur/vara-tint sem maður doppar á sig og dreifir svo úr. Minna er meira með þessa vöru - liturin er lúmskt sterkur og þornar fljótt svo ekki leyfa honum að þorna á húðinni áður en þið dreifið úr honum. Best að dreifa bara úr honum með fingrunum finnst mér. Endist heillengi á húðinni og gefur mjög fallegan lit í kinnarnar. Svo er líka mjög fallegt að nota þetta á varirnar. Fjölnota snilld!


Annað gloss, aðeins bleikara og aðeins sterkari litur. Myndi líka henta einstaklega vel með dökkri augnförðun eða bara hversdags. Lyktin er líka dásamlega góð.


Spennan, frekar sæt reyndar. Aldrei að vita nema ég noti hana einn daginn.


Er aðeins búin að stelast til að athuga hvað er inni í hinum gluggunum á netinu og veit að það er fullt af skemmtilegu sem bíður mín! Veit þó ekki í hvaða röð, svo að það er alltaf spennandi að vakna og kíkja í dagatalið - alveg eins og þegar ég var lítil. Þetta dagatal og kaffi er það sem gerir prófatímabilið bærilegt í ár :)



2 comments:

  1. Replies
    1. Þetta var víst uppselt allstaðar á netinu en svo fann ég heilt fjall af þessu í Illum í Köben :)

      Delete