Tuesday, January 14, 2014

Janúarhugleiðingar - bootcamp, blak og fitubrennsla

Venjulega fyllist ég einhverjum eldmóði í byrjun árs og lofa sjálfri mér öllu fögru. Er svo yfirleitt dottin í sukkið um miðjan febrúar. Þetta árið eru væntingarnar og markmiðin hógværari en áður. Allt síðasta ár fór í allsherjar yfirhalningu á mataræði og lífsstíl með hjálp frá Loga Geirs fyrri hluta árs og svo ein og óstudd þann síðari. Ég get sagt með stolti að ég hafi lært að hugsa um mat og æfingu gjörsamlega uppá nýtt og lært að njóta án samviskubits. Síðan ég hætti í þjálfuninni hefur mér tekist að halda mínu striki án þess að á mér hafi sést mikill munur. Hef eiginlega staðið í stað en þó gefið í í ræktinni og held að ég geti talið á fingrum annarrar handar hversu oft ég átti viðskipti við Nammiland Hagkaupa síðasta ár. Sem er viss persónulegur sigur haha..Ég lofaði í nóvember árangursmynd í desember en neyddist svo til að taka mér pásu frá lyftingum og öllu nema stöðugleikaæfingum fyrir axlir og kvið og bak í desember vegna meiðsla og náði því ekki þeim árangri sem ég ætlaði mér í desember. 

Nú er svo komið nýtt ár og nýju ári fylgja nýjar áskoranir. Ég setti mér svosem ekki beint áramótaheit nema að geta gert 6 upphífingar í júní. Ég skráði mig nefnilega í BootCamp í Elliðaárdalnum og byrjaði í síðustu viku. Þvílíkt hörkupúl og algjör snilld! Þarna kemst maður ekki upp með neinar afsakanir! Frábær stemning, skemmtilegur hópur og flottir þjálfarar. Ég er ekki vön miklu hlaupi og skoppi en þetta er ótrúlega passleg blanda af þoli og styrk og mikið af para- og hópavinnu þar sem maður fær hvatningu frá félögunum. Þarna þýðir ekkert að hafa spaghetti hendur og minn veikleiki eru einmitt upphífingar. Það er skemmtileg tilbreyting að hafa áramótaheiti sem felur ekki í sér að missa x kíló eða passa í x stærð af buxum heldur að geta gert eitthvað, hlaupið hraðar, lyft þyngra og gert fleiri armbeygjur. 

Svo skráði ég mig líka í byrjendablak í HK og hlakka mikið til að byrja. Hef nefnilega aldei æft neina boltaíþrótt..eða neina íþrótt yfir höfuð. Það er svo sannarlega áskorun fyrir mig og vel út fyrir þægindahringinn þar sem ég á það til að skrækja og loka augunum þegar ég sé bolta koma fljúgandi að mér...vonandi breytist það.

Dyggur félagi minn á BootCamp æfingum hefur verið Polar-púlsmælirinn sem ég fékk í jólagjöf. Ótrúlega sniðug græja sem mælir hjartsláttinn og hitaeiningarnar sem þú brennir. Til að finna þinn hámarkspúls dregur þú aldurinn þinn frá 220. Minn hámarkspúls er því 198. Oft er talað um að sá púls þar sem mest fitubrennsla verður sé á bilinu 70-85% af hámarkspúls. Hjá mér væri það þá á bilinu 138-168. Þá stilli ég púlsmælinn minn á það bil og sé hvenær púlsinn fer uppfyrir það. Einnig sé ég hversu mörgum hitaeiningum ég brenni á æfingunni. Púlsmælirinn getur svo geymt gögn um nokkrar æfingar aftur í tímann (10 minnir mig..) og þú getur flett upp í þeim. Púlsmælirinn er ótrúlega einfaldur í notkun. Með honum fylgir teygja með elektróðum sem þú bleytir og festir bandið utan um þig, undir brjóstunum. Ég smeygi mínu alltaf undir íþróttatoppinn svo hann renni ekki til. Svo ýtirðu bara á start og mælirinn sendir upplýsingarnar í úrið. Frábær leið til að fylgjast með framförum á æfingum og svo er hvetjandi að sjá hversu mikið maður er að brenna hverju sinni. Mér finnst það allavega. 


Polar púlsmælarnir fást m.a. í Altis í Hafnarfirði og eru fáanlegir í nokkrum litum. Minn er svona fallega bleikur eins og þessi á myndinni hér fyrir ofan. 

Ef þið nenntuð að lesa þetta allt...*high five* og gangi ykkur vel með ykkar markmið á árinu, hver svo sem þau eru!

-Kara



3 comments: