Monday, July 28, 2014

Ofur-pönnukökur

Þegar maður elskar pönnukökur en er að reyna að verða ekki akfeitur (segir ein með fullan kjaftinn af  m&m...) er um að gera að hafa opinn huga í leit að nýjum hráefnum í pönnukökur sem hægt að njóta án samviskubits t.d. bara á svona grámyglulegum mánudegi eins og þessum. Þ.e. fyrir árrisula...ekki fyrir mig nema kannski um helgar. 

Mér finnst rosa gaman að fara ein í búðina og standa lengi í heilsuganginum í Krónunni og skoða úrvalið af fræjum og mjöli og öllu mögulegu sem þar er til. Svo fór einn daginn að ég birgði mig upp af hinum ýmsu fræjum, m.a.a til að gera hrökkbrauð. Svo sá ég hampfræ í litlum poka og mundi þá eftir að Ása Regins á Trendnet hafði verið að dásama þessi fræ og talaði m.a. um að þau hefðu gert undur fyrir exemið hjá stráknum hennar og þeir lesendur sem höfðu prófað tóku í sama streng. Hér og hér getiði séð færslurnar hennar Ásu. 
Ég er að vísu ekki með exem - en það getur ekki sakað að prófa allt sem getur gert húðinni gott! 

Með í pokann rötuðu svo chia fræ - sem ég skal bara viðurkenna hér og nú að ég þoli ekki því ég bara skil ekki áferðina. Á maður að tyggja þetta? gleypa? Skil ekki. Ég veit að það er rosa töff að borða chia graut úr krukku á morgnanna en ég geymi varaliti í krukkunum mínum og get ekki sett þennan graut inn fyrir mínar varir. En vegna þess hvað chia fræin innihalda mikið af góðum næringarefnum reyni ég að nota þau eins oft og ég man eftir út í Nutribullet drykkina mína. Þá hakkast fræin og verða ekki svona klístraðir hlunkar skiljiði. Maður finnur varla fyrir þeim. 

Keypti líka hörfræ og á þau yfirleitt alltaf til. Til þess að geta tekið upp næringuna úr hörfræjunum þarf að mala þau eða leggja í bleyti. Mér finnst betra að mala þau og þá einmitt fæ ég næringuna en þarf ekki að tyggja þau í einhverjum graut. 

Öll þessi fínu fræ notaði ég svo til að búa til þessar dýrindispönnukökur sem sjást hér í extreme close up


Ég setti dass (því ég var í tilraunastarfsemi og bjóst ekki við að þetta myndi koma svona vel út, satt best að segja) af hampfræjum, chiafræjum og hörfræjum í Nutribullet blandarann og bjó til einhverskonar mjöl úr þeim. Það tekur enga stund því þessi blandari er einhver undragræja. Malar allt í klessu á ca 4 sek. 

Svo hellti ég öllu sammen í skál
-stappaði banana í miður girnilega stöppu
-bætti út í helling af kanil
-tvö egg
-nokkrir dropar af steviu (ég setti eitthvað á milli 6-9 dropa)
-örlítið lyftiduft
-smá mjólkurdreitill (hvernig mjólk sem er - kúa- eða möndlu eða hvað sem er)

Svo hrærði ég eins og vindurinn þangað til gumsið í skálinni leit út ca eins og steypa. Næst er að skella smá klessu á pönnuna (með kókosolíu ef vill) og steikja þar til þær líta sæmilega út.

Ostur og smjör og verði ykkur að góðu!

-Ást og pönnsur
-Kara

1 comment:

  1. Mikið er þetta skemmtilegt blogg! Ég var að rekast á það og ætla heldur betur að bookmark-a :)

    ReplyDelete